Rótarýklúbbur Rangæinga
Rótarýfundur 1. fundur starfsársins og 2421 fundur frá upphafi, föstudaginn 3. september 2021 haldinn í Básum í Þórsmörk.
Lagt var í Þórsmerkurferð kl. 16.00 – Þar sem klúbbfélagar eru siðprúðir og fara að sóttvarnareglum voru þeir með grímur, fyrri hluta ferðar eins og vera ber á sérkennilegum fordæmalausum Covit tímum.
Mætt: Sigurlín Sveinbjarnardóttir forseti, Árni Bragason, Sigurður Sigurðsson, Sæmundur Holgersson stallari, Ágúst Ingi Ólafsson, Árný Hrund Svavarsdóttir gjaldkeri og Ísólfur Gylfi Pálmason ritari klúbbsins.
Forfallaðir: Sveinn Runólfsson, Elína Hrund Kristjánsdóttir, Sváfnir Sveinbjarnarson, Grétar Hrafn Harðarson, Kjartan Þorkelsson, Lúðvík Bergman og Gunnar Nordahl.
Gestir: Guðbjörg Guðmundsdóttir, Sigríður Kristín Helgadóttir, Eyjólfur Elíasson, Jón Valur Baldursson, Sigrún Jónsdóttir, Steinunn Ósk Kolbeinsdóttir, Sóley Ástvaldsdóttir, Anna Einarsdóttir, Ásta Kristjánsdóttir, Sverrir Kristjánsson, Ragnar Þór Ólafsson og Guðlaug Oddgeirsdóttir.
Forseti Sigurlín Sveinbjarnardóttir setti fundinn kl. 19.30. Ágúst Ingi sérstakur grillmeistari klúbbsins stóð sína plikt að vanda og laðaði fram lambakjöt af bestu gerð með dyggri aðstoð tóstmeistarans Árnýjar Hrundar. Ritari tók upp gítarinn og sungið var af mikilli innlifun viðeigandi lög og texta. Nýr félagi, Finnbogi Óskar Ómarsson var tekinn inn í klúbbinn en Finnbogi hefur um áraraðir ekið okkur Rótary félögum í Þórsmörk og nú með „Austurleiðarrútu“ í eignin eigu, okkur til gleði og ánægju. Honum voru færðar sérstakar þakkir fyrir trygglyndi og þjónustulund. Fundinum barst ljóð frá fyrrum Rótary-félaga okkar Guðmundi Halldórssyni sem var með okkur í anda, ljóðið er eftirfarandi og var einnig kvæði kvöldsins.
Til ykkar í flýti ég fylgi snar,
feginn á vængjum léttur.
Er Ísólfur Gylfi einnig þar
og eru þar kótelettur?
Verma hjartað vinafundir
sem víst er gott að muna og þrá.
Man ég okkar Merkurstundir
mikið var nú gaman þá.
Heima sit ég og er gramt í geði,
grátandi Merkurferðirnar.
Hjá ykkur er vísast vín og gleði
vænar steikur og kvennafar.
Minnt var á að nýr fundarstaður er á Goðaland í Fljótshlíð og fundir hefjist kl. 18.00 á fimmtudögum, sem er hinn fasti fundardagur frá upphafi.
Í lok fundar var farið með fjórprófið: Er það satt og rétt? Er það drengilegt? Eykur það velvild og vinarhug? Er það öllum til góðs?
Góðglaðir Rótary-félagar og gestir þeirra komu á Hvolsvöll um miðnæturbil eftir velheppnaða Merkurferð.